Leikmaður United með veiruna

Alexis Telles missir af næstu leikjum United.
Alexis Telles missir af næstu leikjum United. AFP

Alexis Telles, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er með kórónuveiruna.

Þetta staðfesti Ole Gunnar Solskjær, stjóri liðsins, á blaðamannafundi eftir 5:0-sigur liðsins gegn RB Leipzig í Meistaradeildinni á Old Trafford í Manchester í gær.

Telles var ekki í leikmannahóp United í leiknum og kom það mörgum á óvart en hann gekk til liðs við félagið í sumar frá Porto fyrir tæplega 14 milljónir punda.

„Telles greindist með kórónuveiruna á dögunum,“ sagði Solskjær á fundinum í gær.

„Hann er einkennalaus og hann verður fljótur að jafna sig,“ bætti norski stjórinn við.

Vinstri bakvörðurinn, sem er 27 ára gamall, er frá Brasilíu en hann hefur byrjað einn leik fyrir United á tímabilinu en það var í 2:1-sigri liðsins gegn PSG í Meistaradeildinni í síðustu viku.

mbl.is