Afrekaði fleira en flestir enskir knattspyrnumenn

Nobby Stiles stendur á milli þeirra Paul Bonetti og Bobby …
Nobby Stiles stendur á milli þeirra Paul Bonetti og Bobby Moore fyrir leik á HM 1966. AFP

Einn af þekktustu leikmönnum Manchester United á 20. öldinni, Nobby Stiles, er látinn 78 ára að aldri en tilkynnt var um andlátið í dag. 

Stiles er einn örfárra Englendinga sem afrekaði að vinna bæði heimsmeistarakeppnina og Evrópukeppni meistaraliða. Þar sem England hefur jú aðeins einu sinni orðið heimsmeistari þá er sá hópur manna skiljanlega ekki fjölmennur. Stiles var í liði Englands sem sigraði 1966 og var í liði Manchester United sem sigraði í Evrópukeppni meistaraliða árið 1968, fyrst enskra liða. 

Nobby Stiles var því þátttakandi í tímamótaafrekum í íþróttasögu Englendinga. Hann var ekki sá leiknasti á knattspyrnuvellinum en harðduglegur og baráttuglaður. 

Stiles gekk til liðs við United á uppbyggingarárunum eftir flugslysið í München. Var hann hjá félaginu frá 1960-1971 og lék yfir 300 hundrum leiki fyrir United áður en hann hélt til Middlesbrough og lauk ferlinum hjá Preston. Hann lék 28 A-landsleiki fyrir England. 

Stiles greindist með krabbamein árið 2013 og glímdi við heilabilun síðustu ár ævinnar. Fram hefur komið opinberlega hjá fjölskyldumeðlimum að þau óttast að heilabilunin kunni að hafa tengst höfuðhöggum í knattspyrnunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert