Ég skil ekki þessa ákvörðun

Ole Gunnar Solskjær ásamt leikmönnum Manchester United og Chelsea en …
Ole Gunnar Solskjær ásamt leikmönnum Manchester United og Chelsea en bæði lið hafa mikið að gera um þessar mundir. AFP

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United kveðst ekkert skilja í ensku úrvalsdeildinni að hafa ekki haldið áfram að leyfa fimm innáskiptingar hjá hverju liði í á yfirstandandi keppnistímabili.

Eftir að hlé var gert á fótboltanum í þrjá mánuði fyrr á þessu ári vegna útbreiðslu kórónuveirunnar gaf FIFA út heimild til þess að knattspyrnusambönd gætu leyft fimm skiptingar í leik í stað þriggja. Sú regla var tekin upp hjá deildinni í sumar þegar keppnistímabilinu 2019-20 var lokið í júní og júlí en var síðan felld niður þegar tímabilið 2020-21 hófst og félögin samþykktu að hverfa aftur til þriggja skiptinga á lið.

„Ég skil ekki þessa ákvörðun og hreinlega trúi því ekki að félögin hafi greitt atkvæði gegn því að leyfa fimm skiptingar áfram. Við erum að fara í gegnum mest krefjandi keppnistímabil í sögunni og verðum að hlúa vel að leikmönnum og gæta að bæði líkamlegri og andlegri heilsu þeirra," sagði Solskjær á fréttamannafundi í dag.

„Við höfum þegar orðið vitni að mikilli aukningu meiðsla. Ég veit að Pep Guardiola hefur talað um þetta. Við, félögin og knattspyrnustjórarnir, verðum að gæta vel að leikmönnunum okkar," sagði Solskjær.

Gríðarlegt álag er á þeim liðum sem taka þátt í Evrópumótum félagsliða þessa dagana en leikið er í þeim í miðri viku og í deildunum heima fyrir um helgar. Þegar Manchester United leikur við Arsenal á sunnudaginn verður það fimmti leikur liðsins á sextán dögum, frá 17. október til 1. nóvember.

mbl.is