Klopp í vandræðum með miðvarðastöðurnar

Rhys Williams gæti leikið sinn fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir Liverpool á …
Rhys Williams gæti leikið sinn fyrsta úrvalsdeildarleik fyrir Liverpool á morgun. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool staðfesti á fréttamannafundi í dag að Brasilíumaðurinn Fabinho yrði ekki með gegn West Ham í úrvalsdeildinni á morgun.

Fabinho fór meiddur af velli snemma leiks þegar Liverpool lék  við Midtjylland í Meistaradeild Evrópu síðasta þriðjudag.

Fabinho var þá í stöðu miðvarðar þar sem hann hefur leyst Virgil van Dijk af hólmi í síðustu þremur leikjum en spilar annars sem miðjumaður.

Joel Matip er meiddur og þar með er Joe Gomez eini miðvörðurinn með einhverja reynslu sem er tiltækur fyrir leikinn gegn West Ham. Þar með er líklegt að hinn 19 ára gamli Rhys Williams verði í byrjunarliðinu á morgun en hann kom inn á sem varamaður fyrir Fabinho gegn Midtjylland.

Eins gæti fyrirliðinn Jordan Henderson leikið við hlið Gomez í vörninni. Klopp tók Henderson út af í hálfleik gegn Midtjylland en sagði að hann ætti ekki við nein meiðsli að stríða. Hann hefði tekið hann af velli til að hvíla hann í þeirri miklu leikjatörn sem nú stendur yfir hjá þeim liðum sem eru í Evrópukeppni.

Skammt er stórra högga á milli því strax næsta þriðjudag leikur Liverpool gegn Atalanta í Meistaradeildinni en það verður sjötti leikur liðsins á átján dögum.

mbl.is