Liverpool horfir til Ítalíu

Kalidou Koulibaly er áfram orðaður við Liverpool.
Kalidou Koulibaly er áfram orðaður við Liverpool. AFP

Liverpool hefur áhuga á senegalska miðverðinum Kalidou Koulibaly en það er ítalski miðillinn Calciomercato sem greinir frá þessu.

Koulibaly er samningsbundinn Napoli í ítölsku A-deildinni en hann var sterklega orðaður við Liverpool í allt sumar.

Leikmaðurinn greindi sjálfur frá því að hann væri spenntur fyrir því að reyna fyrir sér í ensku úrvalsdeildinni með Liverpool en hann er samningsbundinn Napoli til sumarsins 2023.

Napoli vildi fá 60 milljónir punda fyrir hann í sumar en það var upphæð sem forráðamenn Liverpool voru ekki tilbúnir að borga fyrir 29 ára gamlan leikmann.

Liverpool er sagt vilja bæta við sig miðverði, annaðhvort í janúar eða síðasta lagi næsta sumar, eftir að Virgil vin Dijk skaddaði liðbönd á hné og verður að öllum líkindum frá út tímabilið.

Þá er Joel Matip enn og aftur meiddur og Joe Gomez því eini heili miðvörður liðsins eins og staðan er í dag.

Fabinho er einnig að glíma við meiðsli en hann hefur leikið sem miðvörður í fjarveru van Dijks og Matips.

Forráðamenn Liverpool ætluðu sér að treysta á þrjá miðverði á tímabilinu eftir að hafa selt Dejan Lovren til Rússlands en þeir hafa nú áttað sig á því að það voru mistök.

mbl.is