Segja uppskurðinn hjá van Dijk vel heppnaðan

Jordan Pickford markvörður Everton brýtur á Virgil van Dijk.
Jordan Pickford markvörður Everton brýtur á Virgil van Dijk. AFP

Englandsmeistarar Liverpool tilkynntu fyrir stundu að hollenski knattspyrnumaðurinn Virgil van Dijk hefði gengist undir uppskurð á hné í London vegna hnjámeiðslanna sem hann varð fyrir í leiknum við Everton fyrr í þessum mánuði.

Sagt er á heimasíðu Liverpool að uppskurðurinn hafi heppnast vel en þar er talað um sködduð liðbönd í hné, ekki slitið krossband eins og fjallað hefur verið um í fréttum af atvikinu til þessa.

Enginn tímarammi hefur verið settur á endurkomu varnarmannsins öfluga á knattspyrnuvöllinn, samkvæmt heimasíðunni, en sagt að van Dijk muni strax hefjast handa við endurhæfinguna með hjálp sjúkrateymis félagsins.

mbl.is