Schmeichel ósáttur við Solskjær (myndskeið)

„Þetta var ekki frábær leikur, hann var eiginlega frekar leiðinlegur ef ég á að vera hreinskilinn. En þetta var taktískt stríð og Mikel Arteta gjörsigraði það,“ sagði Peter Schmeichel í samtali við þá Tómas Þór Þórðarson og Bjarna Þór Viðarsson í Vellinum á Símanum Sport en hann var að ræða við þá um 1:0-sigur Arsenal á Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Ég varð fyrir vonbrigðum með Manchester United. Mér fannst miðjan hjá þeim ekki henta því hvernig liðið á að spila, leikmennirnir eru of hægir og það tekur of langan tíma fyrir þá að snúa vörn í sókn,“ sagði Schmeichel sem var auðvitað markvörður Manchester United á sínum tíma. Daninn var svekktur með nokkrar ákvarðanir Ole Gunnar Solskjær, hans gamla liðsfélaga og núverandi knattspyrnustjóra United.

„Ég skil ekki af hverju hann tók Fernandes út af. Ég hefði frekar tekið Pogba út af, hann var of lengi á boltanum og kom honum aldrei fyrir markið. Ef einhver leikmaður er líklegur til að búa til eitthvað úr engu þá er það Bruno Fernandes og hann var tekinn af velli.“

Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.

mbl.is