Lýsir yfir fullum stuðningi við Solskjær

Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í leiknum gegn Everton síðastliðna …
Ole Gunnar Solskjær á hliðarlínunni í leiknum gegn Everton síðastliðna helgi. AFP

Ed Woodward, framkvæmdastjóri Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir félagið standa að fullu við bakið á Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóra.

„Félagið styður heilshugar við þá jákvæðu vegferð sem það er á undir stjórn Ole,“ sagði Woodward í tilkynningu um afkomu félagsins á fyrsta fjórðungi ársins 2020.

Eftir tvö töp í röð, 0:1 gegn Arsenal í ensku úrsvalsdeildinni og 2:1 gegn Istanbul Basaksehir í Meistaradeild Evrópu, var talið að sæti Solskjær væri farið að hitna allverulega.

Árangurinn hefur ekki verið góður í deildinni þar sem Manchester United er í 14. sæti með 10 stig eftir 7 leiki. Þrátt fyrir tapið gegn Basaksehir er liðið þó á toppnum í erfiðum riðli sínum í Meistaradeildinni með 6 stig eftir 3 leiki, þar sem frábærir sigurleikir gegn PSG og RB Leipzig komu liðinu í góða stöðu.

Eftir töpin tvö vann Manchester United góðan 1:3 útisigur gegn Everton um síðustu helgi og miðað við þessi nýjustu ummæli Woodward er Solskjær öruggur í starfi, að minnsta kosti að sinni.

mbl.is