Salah með veiruna

Mohamed Salah í leik með Liverpool gegn Manchester City um …
Mohamed Salah í leik með Liverpool gegn Manchester City um síðustu helgi. AFP

Mohamed Salah, framherji Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, greindist í dag með kórónuveiruna. Þetta hafa forráðamenn egypska knattspyrnusambandsins staðfest.

Salah er einkennalaus en fer nú í einangrun. Vegna smitsins mun hann væntanlega missa af næstu tveimur leikjum Liverpool, gegn Leicester eftir rúma viku og Atalanta nokkrum dögum síðar.

Salah er um þessar mundir í landsliðsverkefni með egypska landsliðinu og staðfestu forráðamenn egypska knattspyrnusambandsins að enginn annar leikmaður landsliðsins hefði greinst með veiruna.

Þetta er enn eitt áfallið fyrir Liverpool, sem missti Joe Gomez á dögunum í langvarandi meiðsli. Auk þess eru Fabinho, Thiago, Trent Alexander-Arnold, Virgil van Dijk og Alex Oxlade-Chamberlain á meiðslalistanum. Gomez, van Dijk og Oxlade-Chamberlain glíma allir við langvarandi meiðsli.

Salah er ekki fyrsti leikmaður Liverpool sem greinist með kórónuveiruna. Áður höfðu Thiago og Sadio Mané greinst með veiruna en þeir voru líkt og Salah einkennalausir.

mbl.is