Nálgast nýjan samning

Núverandi samningur Pep Guardiola rennur út næsta sumar.
Núverandi samningur Pep Guardiola rennur út næsta sumar. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City í ensku úrvalsdeildinni, er nálægt því að skrifa undir nýjan samning við enska félagið en það er Telegraph sem greinir frá þessu.

Guardiola er samningsbundinn City út þetta tímabil en Guardiola verður fimmtugur í janúar á næsta ári.

Guardiola tók við þjálfun City sumarið 2016 og þetta er því hans fimmta tímabil með liðið en City hefur tvívegis orðið Englandsmeistari undir stjórn Spánverjans, einu sinni bikarmeistari og þrívegis deildabikarmeistari.

Guardiola hefur einnig stýrt Barcelona og Bayern München á ferli sínum sem þjálfari þar sem hann varð þrívegis Spánarmeistari og þrívegis Þýskalandsmeistari.

Hann er ekki þekktur fyrir það að stoppa lengi á þeim stöðum sem hann hefur þjálfað en það stefnir allt í að hann verði áfram knattspyrnustjóri City næstu árin.

mbl.is