Áfall á áfall ofan hjá Liverpool

Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold eru báðir fjarverandi vegna meiðsla …
Jordan Henderson og Trent Alexander-Arnold eru báðir fjarverandi vegna meiðsla og þá gæti Mohamed Salah einnig misst af stórleiknum um næstu helgi. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, verður ekki með liðinu um næstu helgi þegar Liverpool fær Leicester í heimsókn í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.

Henderson fór meiddur af  velli í hálfleik í 2:0-tapi Englands gegn Belgum í Þjóðadeild UEFA í Leuven í Belgíu í gær.

Um vöðvameiðsli er að ræða en Liverpool verður án þeirra Virgil van Dijk, Joe Gomez og Trent Alexander-Arnold í leiknum.

Þá er Andy Robertson tæpur fyrir leikinn eftir meiðsli sem hann varð fyrir í leik Skota og Serba í umspili um laust sæti á EM í síðustu viku og Mohamed Salah er með kórónuveiruna.

Óvíst er hversu lengi Henderson verður frá en góðu fréttirnar fyrir Liverpool eru þær að þeir Fabinho, Thiago Alcantara og Alex Oxlade-Chamberlain hafa allir hafið æfingar að nýju með liðinu.

Þrátt fyrir þessi miklu meiðslavandræði hefur Liverpool farið vel af stað á tímabilinu og er í þriðja sæti úrvalsdeildarinnar með 17 stig, einu stigi minna en topplið Leicester.

mbl.is