Salah með einkaþotu til Liverpool

Mo Salah er með kórónuveiruna.
Mo Salah er með kórónuveiruna. AFP

Egypsku knattspyrnumennirnir Mohamed Salah hjá Liverpool og Mohamed Elneny hjá Arsenal fljúga til Englands frá Egyptalandi í dag, en þeir greindust báðir með kórónuveiruna í landsliðsverkefni í vikunni. Fóru þeir síðast í próf í gær og greindust báðir jákvæðir.

Egypska knattspyrnusambandið greindi frá því í dag að Salah og Elneny muni ferðast til Englands í einkaþotu, en þeir hafa verið í einangrun í heimalandinu síðustu daga.

Salah og Elneny þurfa báðir að fara í tíu daga sóttkví við komuna til Englands og fá neikvætt úr kórónuveiruprófum til að mega æfa og spila með liðum sínum á nýjan leik.

Liverpool mætir Leicester á sunnudaginn kemur á heimavelli og Arsenal heimsækir nýliða Leeds sama dag.

mbl.is