Annar sigur Brighton eftir dramatík

Það sauð upp úr á milli manna á Villa Park …
Það sauð upp úr á milli manna á Villa Park í dag. AFP

Brighton vann 2:1-útisigur á Aston Villa í dramatískum leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Rautt spjald fór á loft á lokamínútunni og myndbandsdómsgæslan var í aðalhlutverki.

Danny Welbeck kom gestunum yfir á 13. mínútu með frábæru einstaklingsmarki. Hann fékk þá boltann á eigin vallarhelmingi, keyrði á varnarmenn Villa og renndi svo boltanum laglega í netið framhjá Emiliano Martinez í markinu.

Heimamenn fengu þó töluvert af færum og uppskáru sanngjarnt jöfnunarmark á 47. mínútu eða strax í upphafi síðari hálfleiks. Ezri Konsa skoraði það af stuttu færi eftir aukaspyrnu frá Bertrand Traoré.

Solly March kom gestunum aftur yfir á 57. með stórglæsilegri spyrnu sem reyndist sigurmarkið, hann sneri boltann í fjærhornið utarlega í teignum vinstra megin.

Mikil dramatík var svo í lokin. Tariq Lamptey fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma og þar með rautt í liði heimamanna og mínútu síðar dæmdi Michael Oliver vítaspyrnu á Brighton þegar March virtist klaufalega sparka Trezeguet niður inn í teig.

Oliver fór svo sjálfur og horfði á atvikið á myndbandsskjánum við hliðarlínunni og sást þá að March kom við boltann. Vítaspyrnan var því dregin til baka og Brighton vann dramatískan sigur. Brighton er með níu stig í 16. sæti en þetta var annar sigur liðsins í níu leikjum. Villa er í 6. sæti með 15 stig, hefur spilað átta leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert