Ósáttur við vinnubrögð United

Chris Smalling í leik með Roma.
Chris Smalling í leik með Roma. AFP

Knattspyrnumaðurinn Chris Smalling er allt annað sáttur við fyrrverandi vinnuveitendur sína í Manchester United.

Smalling var að láni hjá Roma á Ítalíu á síðustu leiktíð og kom aftur til United eftir tímabilið. Hann fékk síðan að vita seint í félagaskiptaglugganum að þjónustu hans yrði ekki óskað hjá United. 

„Þetta var pirrandi. Þeir hefðu mátt segja mér þetta fyrr. Enski glugginn var lokaður og ég var í ömurlegri stöðu. Ég var ekki viss hvað myndi taka við,“ sagði Smalling, en að lokum samdi hann aftur við Roma.

Smalling var í tíu ár hjá United og lék 323 leiki og skoraði í þeim 18 mörk. Englendingurinn lék afar vel með Roma á síðustu leiktíð og hefur alls spilað 41 leik fyrir ítalska liðið og skoraði í þeim þrjú mörk.

mbl.is