Kærkominn sigur Gylfa og félaga

Eftir þrjá tapleiki í röð fagnaði Everton kærkomnum 3:2-sigri á útivelli gegn Fulham í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum fór Everton upp 16 stig og í fimmta sæti en Fulham er sem fyrr í 16. sæti með aðeins fjögur stig. Dominic Calvert-Lewin skoraði tvö mörk fyrir Everton og er orðinn markahæstur í deildinni með tíu mörk.

Everton byrjaði með miklum látum því eftir aðeins 40 sekúndna leik var Dominc Calvert-Lewin búinn að skora af stuttu færi eftir sendingu frá Richarlison sem vann boltann á vallarhelmingi Fulham.

Heimamenn svöruðu áfallinu hinsvegar vel og Bobby Reid jafnaði á 15. mínútu eftir góða sendingu frá Tom Cairney. Eftir jöfnunarmarkið tók Everton öll völd á vellinum.

Calvert-Lewin var aftur á ferðinni á 29. mínútu með annað mark af stuttu færi eftir fallega sókn og fyrirgjöf Lucas Digne. Franski bakvörðurinn var aftur á ferðinni sex mínútum síðar er hann gaf fyrir á Abdoulaye Doucouré sem skoraði þriðja mark Everton með föstum skalla af stuttu færi og var staðan í leikhléi 3:1.

Seinni hálfleikurinn var rólegur framan af en á 58. mínútu gerði Scott Parker knattspyrnustjóri Fulham tvöfalda skiptingu sem átti eftir að borga sig. Parker setti þá Aleksandar Mitrovic og Ruben Loftus-Cheek inn á og tíu mínútum síðar var Loftus-Cheek búinn að ná í víti eftir góðan samleik við Mitrovic.

Ivan Cavaleiro fór á punktinn en rann á rassinn í skotinu og setti boltann hátt yfir. Mínútu síðar var Loftus-Cheek hinsvegar búinn að minnka muninn í 3:2 eftir sendingu frá Ademola Lookman og munurinn aðeins eitt mark þegar 20 mínútur voru til leiksloka.

Gylfi Þór Sigurðsson kom inn á sem varamaður sex mínútum síðar eða á 76. mínútu. Gylfi komst lítið í takt við leikinn en það kom ekki að sök því Everton fagnaði stigunum þremur þrátt fyrir pressu heimamanna í lokin. 

Fulham 2:3 Everton opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fimm mínútur í uppbótartíma. Verða væntanlega fimm mínútur af þéttri vörn gestanna á meðan heimamenn reyna hvað þeir geta til að jafna.
mbl.is