Ekki viss um að enda tímabilið með 11 heila leikmenn

Jürgen Klopp í viðtali eftir leikinn í gær.
Jürgen Klopp í viðtali eftir leikinn í gær. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir það nauðsynlegt að rétthafar beinna útsendinga leikja í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu endurskoði leikjaplanið. Álagið sé slíkt að hann sé ekki viss um að Liverpool endi tímabilið með 11 heila leikmenn.

„Allir segja mér að það sé erfitt að taka þessa ákvörðun en þetta er virkilega erfitt fyrir leikmennina. Annars er þetta bara ákvörðun sem er tekin við skrifborð á skrifstofu,“ sagði Klopp í samtali við Sky Sports eftir 3:0 sigur Liverpool gegn Leicester City í gær.

Hann beindi orðum sínum svo sérstaklega að Sky og BT, sem fara með réttinn á Englandi ásamt Amazon Prime. „Ef þið farið ekki að tala við BT er þetta búið spil fyrir okkur. Sky og BT verða að tala saman. Ef við höldum áfram að spila á miðvikudögum og svo laugardögum klukkan 12:30 er ég ekki viss um að við klárum tímabilið með 11 heila leikmenn.“

Liverpool hefur spilað leik í miðri viku og um helgi í hverri einustu viku síðan 20. september, en núverandi tímabil hófst 15. september. Inn á milli hafa svo verið tvö landsleikjahlé þar sem hvert landslið hefur spilað þrjá leiki.

Þegar fréttamaður Sky benti Klopp á að félögin hefðu samþykkt þessa samninga um útsendingar leikja svaraði hann: „Ef fólk heldur áfram að segja mér frá þessum samningum þá brjálast ég, því þessir samningar voru ekki gerðir með Covid-tímabil í huga.“

„Við lögum okkur að breyttum aðstæðum. Allt breyttist en samningurinn við rétthafa útsendinganna er enn þá einhvern veginn svona: „Nei, við erum með þennan samning þannig að við höldum þessu svona.“ Ha? Allt breyttist. Allur heimurinn breyttist,“ sagði Klopp og var greinilega mikið niðri fyrir.

Hann sagði þetta alls ekki eiga bara við um Liverpool. „Í fyrradag meiddist [Gerard] Piqué hjá Barcelona illa á hné. Í gær meiddist [Bukayo] Saka hjá Arsenal, ég er ekki viss en það leit líka út fyrir að vera hnémeiðsli. Hann spilaði alla þrjá leiki Englands í landsleikjahléinu.“

Alls eru 9 leikmenn fjarverandi vegna meiðsla hjá Liverpool, auk þess sem Mohamed Salah missti af leiknum í gær vegna kórónuveirusmits. „Fólk segir okkur að dreifa álaginu en hverjum eigum við að spila? Við getum dreift álaginu hjá framherjunum en restin eru bara krakkar,“ bætti Klopp við.

Fyrsta skipting Liverpool í leiknum í gær kom á 54. mínútu, þegar Naby Keita fór af velli vegna vöðvameiðsla aftan í læri. Síðari tvær skiptingar liðsins komu svo á 89. mínútu. „Ástæðan fyrir því að við skiptum svona seint er af því að við þurfum stöðugt að leiða hugann að því að einhver leikmanna okkar muni leggjast í grasið með vöðvameiðsli. Við getum ekki gert breytingar snemma því ef það gerist endum við leikinn með níu leikmenn,“ útskýrði hann.

Af þessum sökum hefur Klopp, ásamt meðal annars Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, kallað eftir því að enska úrvalsdeildin leyfi fimm skiptingar.

mbl.is