Jóhann sjötti hundrað leikja Íslendingurinn

Jóhann Berg Guðmundsson hitar upp fyrir leik með Burnley.
Jóhann Berg Guðmundsson hitar upp fyrir leik með Burnley. AFP

Jóhann Berg Guðmundsson landsliðsmaður í knattspyrnu lék í kvöld sinn 100. leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar Burnley tók á móti Crystal Palace, eins og áður hefur komið fram. Hann er sjötti Íslendingurinn sem nær þessum leikjafjölda í deildinni.

Hermann Hreiðarsson er leikjahæstur en hann lék 322 leiki í deildinni á sínum tíma með Crystal Palace, Wimbledon, Ipswich, Charlton og Portsmouth.

Gylfi Þór Sigurðsson nálgast Hermann hægt og bítandi en hann er kominn með 291 leik fyrir Tottenham, Swansea og Everton.

Eiður Smári Guðjohnsen er þriðji en hann lék 211 leiki í deildinni með Chelsea, Tottenham, Stoke og Fulham.

Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, er í fjórða sæti en hann lék 202 leiki með Tottenham og Bolton í deildinni og varð fyrstur Íslendinga til að spila 100 leiki í henni.

Grétar Rafn Steinsson er í fimmta sæti en hann lék 126 leiki í deildinni, alla fyrir Bolton.

Á eftir Jóhanni er Heiðar Helguson í sjöunda sæti en hann lék 96 leiki. Sigurður Jónsson með 75 leiki, Ívar Ingimarsson með 72 og Aron Einar Gunnarsson með 51 leik fylla síðan „topp tíu“ lista Íslendinga í deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert