Snýr aftur eftir veiruna

Mohamed Salah er laus við kórónuveiruna.
Mohamed Salah er laus við kórónuveiruna. AFP

Egypski knattspyrnumaðurinn Mohamed Salah var fjarri góðu gamni þegar Liverpool vann 3:0-sigur gegn Leicester á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Salah greindist með kórónuveiruna í þar síðustu viku í landsliðsverkefni með Egyptum og gat því ekki tekið þátt í leik liðsins um helgina.

Hann snéri aftur til Liverpool í síðustu viku og greindist þá neikvæður af veirunni.

Liverpool Echo greinir frá því að ef Salah reynist neikvæður, eftir kórónuveirupróf hjá UEFA, þá mun hann geta tekið þátt í leik liðsins gegn Atalanta á miðvikudaginn kemur í Meistaradeildinni.

Salah er markahæstur leikmaður Liverpool á tímabilinu með 10 mörk í öllum keppnum en Liverpool er með fullt hús stiga eða 9 stig í efsta sæti D-riðils Meistaradeildarinnar.

Ajax og Atalanta koma þar á eftir með fjögur stig og því ljóst að stig á miðvikudaginn tryggir Liverpool sæti í sextán liða úrslitum keppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert