Á förum frá Arsenal eftir stutt stopp?

Nicolas Pépé í leik með Arsenal á dögunum.
Nicolas Pépé í leik með Arsenal á dögunum. AFP

Nicolas Pépé, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Arsenal, gæti verið á förum frá félaginu en það er Sportsmail sem greinir frá þessu.

Pépé, sem er 25 ára gamall, kom til félagsins frá Lille í Frakklandi sumarið 2019 en Arsenal borgaði 72 milljónir punda fyrir kantmanninn.

Hann hefur hins vegar engan vegin náð sér á strik í herbúðum enska félagsins og hefur ekki átt fast sæti í byrjunarliði Arsenal síðan Mikel Arteta tók við stjórnartaumunum hjá félaginu á síðustu leiktíð.

Pépé hefur byrjað tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu og komið inn á sem varamaður í sexgang en hann hefur skorað eitt mark á tímabilinu í deildinni til þessa.

Hann var í byrjunarliði Arsenal sem gerði markalaust jafntefli gegn Leeds um síðustu helgi en fékk að líta beint rautt spjald í síðari hálfleik og er það sagt vera kornið sem fyllti mælinn hjá Arteta.

Pépé er verðmetinn á 40 milljónir punda í dag og því ljóst að Arsenal myndi tapa umtalsverðum fjárhæðum ef félagið myndi selja hann í janúar en hann hefur verið orðaður við endurkomu til Lille í Frakklandi.

mbl.is