Mourinho búinn að heilaþvo menn

José Mourinho hefur þrívegis orðið Englandsmeistari á sínum ferli.
José Mourinho hefur þrívegis orðið Englandsmeistari á sínum ferli. AFP

Tim Sherwood, fyrrverandi knattspyrnustjóri Tottenham, telur að José Mourinho, núverandi stjóri Tottenham, sé búinn að heilaþvo leikmenn liðsins.

Tottenham varð síðast Englandsmeistari árið 1961 en Mourinho tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í nóvember 2019 af Mauricio Pochettino.

Tottenham hefur byrjað tímabilið af miklum krafti en liðið er í efsa sæti deildarinnar með 20 stig eftir fyrstu níu umferðir tímabilsins.

„José hefur gert frábærlega með leikmannahópinn sem hann er með í höndunum,“ sagði Sherwood í samtali við TalkSport.

„Hann gerði vel á leikmannamarkaðnum og fékk til sín leikmenn sem smellpassa í liðið eins og Raguilón og Höjberg. 

Liðið vinnur virkilega vel í þeim leikjum sem það spilar og það er búið að heilaþvo leikmennina á þann veg að þeir geti unnið hvaða lið sem er.

Þeir virkilega trúa því að þeir geti unnið ensku úrvalsdeildina og ég er einn af þeim sem hef hrifist með líka,“ bætti Sherwood við.

mbl.is