Verða fyrstir til að bjóða áhorfendur velkomna á ný

Úr leik Sheffield United og West Ham United um síðustu …
Úr leik Sheffield United og West Ham United um síðustu helgi. AFP

West Ham United verður fyrsta liðið sem fær að bjóða áhorfendur velkomna á heimavöll sinn, London Stadium, í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla á ný eftir langt áhorfendabann.

Fær West Ham að selja 2.000 miða á leik sinn gegn Manchester United þann 5. desember næstkomandi. Þetta hafa forsvarsmenn ensku úrvalsdeildarinnar staðfest að því er kemur fram í breskum fjölmiðlum í dag.

Tveimur dögum fyrr má Arsenal einnig selja 2.000 miða á heimaleik sinn gegn Rapid Vín í Evrópudeildinni.

Aðeins helmingur liðanna í ensku úrvalsdeildinni má selja miða á leiki sína eftir að útgöngubann í Bretlandi fellur úr gildi 2. desember næstkomandi.

Hinn helmingurinn þarf ennþá að sætta sig við að spila án áhorfenda. Það er vegna þess að tiltekin svæði á Englandi eru enn flokkuð í sérstakan háan áhættuflokk.

Liðin 10 sem mega fá áhorfendur á leiki frá og með 2. desember:

Arsenal

Brighton & Hove Albion

Chelsea

Crystal Palace

Everton

Fulham

Liverpool

Southampton

Tottenham

West Ham United

Liðin 10 sem þurfa að halda áfram að spila fyrir luktum dyrum:

Aston Villa

Burnley

Leeds

Leicester

Manchester City

Manchester United

Newcastle United

Sheffield United

West Bromwich Albion

Wolverhampton Wanderers

mbl.is