Ætti að banna áhorfendur áfram

Marcelo Bielsa.
Marcelo Bielsa. AFP

Marcelo Bielsa, knattspyrnustjóri Leeds United í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, telur að það sama ætti að ganga yfir alla þegar kemur að því að hleypa áhorfendum á leiki í deildinni.

10 lið í ensku úrvalsdeildinni munu frá og með 2. desember fá leyfi til þess að selja 2.000 miða á heimaleiki sína.

Hin 10 liðin sitja eftir með sárt ennið og þurfa enn að spila fyrir luktum dyrum. Ástæðan fyrir því er sú að tiltekin svæði á Englandi eru enn flokkuð í sérstakan háan áhættuflokk.

Borgin Leeds er á einu slíku svæði og áhorfendur því ekki leyfðir á kappleikjum þar í borg. Bielsa kveðst sammála þeirri ákvörðun að leyfa áhorfendum ekki að mæta á leiki á Elland Road, heimavöll Leeds United.

Hann veltir því þó fyrir sér hvort eitt ætti ekki yfir alla að ganga. „Kannski ætti að vera regla til staðar sem kveður á um að ef áhorfendur eru ekki leyfðir á öllum leikvöngum, þá ætti ekki að leyfa neina áhorfendur neins staðar þar til það má hafa áhorfendur á öllum leikvöngum,“ sagði Bielsa í samtali við Sky Sports.

„Þetta ætti ekki að snúast um áhættuflokkinn, eða afleiðingar þess að vera í áhættuflokki, þetta ætti að snúast um að hafa deildina eins jafna og mögulegt er þegar kemur að hlutum sem hægt er að stjórna,“ bætti hann við.

„Ég er bara að hugsa þetta út frá heilbrigðri skynsemi, sem er kannski ekki mögulegt. Viðvera áhorfenda hefur áhrif á úrslit leikja,“ sagði Bielsa að lokum.

mbl.is