Hollenskur miðvörður á leið til Liverpool?

Perr Schuurs í baráttunni við Diogo Jota í leik Ajax …
Perr Schuurs í baráttunni við Diogo Jota í leik Ajax og Liverpool í Meistaradeild Evrópu í október. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Perr Schuurs, sem leikur með Ajax í heimalandinu er sagður vera á leiðinni til Englandsmeistara Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í janúar. Ítalska íþróttablaðið Corriere dello Sport greinir frá þessu og kveðst hafa heimildir fyrir því að Liverpool hafi þegar boðið 27 milljónir punda í leikmanninn.

Schuurs er 21 árs gamall miðvörður og hefur fest sig í sessi í byrjunarliði Ajax á tímabilinu. Hann var valinn í hollenska landsliðið í fyrsta skipti í september síðastliðnum en á enn eftir að spila sinn fyrsta landsleik.

Hefur leikstíl hans verið líkt við jafnaldra sinn og samlanda, Matthijs de Ligt, sem spilar með Juventus og hollenska landsliðinu.

Liverpool á í miklum vandræðum með miðvarðarstöðurnar þar sem báðir byrjunarliðs miðverðir liðsins, Virgil van Dijk og Joe Gomez, verða lengi frá vegna meiðsla.

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur sagst ætla að treysta á Joel Matip og Fabinho í miðvarðarstöðunum, með hinn unga og óreynda Rhys Williams og hinn lítt reynda Nat Phillips til að leysa þá af.

Matip hefur þó verið gjarn á að meiðast í gegnum tíðina og því gæti Klopp neyðst til að kaupa nýjan miðvörð í janúarglugganum, sem opnar á nýársdag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert