Öruggur í sínum aðgerðum

Rúnar Alex Rúnarsson stóð sig vel á milli stanganna í …
Rúnar Alex Rúnarsson stóð sig vel á milli stanganna í sigri Arsenal í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson fær góða dóma hjá erlendum fjölmiðlum eftir frammistöðu sína á milli stanganna hjá Arsenal í leik liðsins gegn Molde í Evrópudeildinni í knattspyrnu í Noregi í gær.

Leiknum lauk með 3:0-sigri Arsenal en þetta var annar byrjunarliðsleikur Rúnars fyrir félagið. Hann stóð einnig á milli stanganna þegar Arsenal fékk Dundalk í heimsókn í Evrópudeildinni í lok október.

„Markvörðurinn ungi var öruggur í öllum sínum aðgerðum þegar mest á reyndi. Þá átti hann mjög góða vörslu í fyrri hálfleik,“ segir í umfjöllun ESPN um leikinn.

Þá fékk Rúnar Alex sjö í einkunn hjá Sky Sports en Nicolas Pépé, sem skoraði eitt marka Arsenal, var valinn maður leiksins.

Rúnar Alex er 25 ára gamall en hann gekk til liðs við Arsenal frá franska 1. deildarfélaginu Dijon í september. Arsenal borgaði 1,5 milljónir punda fyrir markvörðinn.

mbl.is