Missa af næstu leikjum Liverpool

Thiago Alcantara hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum …
Thiago Alcantara hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með Liverpool á tímabilinu. AFP

Alex Oxlade-Chamberlain og Thiago Alcantara, miðjumenn enska knattspyrnufélagsins Liverpool, verða fjarri góðu gamni í næstu leikjum liðsins en þetta staðfesti Jürgen Klopp, stjóri liðsins, um helgina.

Báðir leikmenn eru að glíma við meiðsli en Thiago lék síðast með Liverpool um miðjan október í 2:2-jafntefli liðsins gegn Everton í ensku úrvalsdeildinni. 

Thiago var tæklaður illa undir lok leiksins en kláraði þó leikinn. Hann hefur aðeins komið við sögu í tveimur leikjum með Liverpool á tímabilinu eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Bayern München í haust fyrir 25 milljónir punda.

Oxlade-Chamberlain hefur ekkert leikið með Liverpool á tímabilinu vegna meiðsla en James Milner, miðjumaður liðsins, meiddist einnig gegn Brighton í deildinni í gær.

Það er því ljóst að allir þrír leikmennirnir munu missa af leikjum Liverpool gegn bæði Ajax í Meistaradeildinni og Wolves í úrvalsdeildinni um næstu helgi.

mbl.is