Giroud skoraði fjögur fyrir Chelsea

Olivier Giroud þakkar Nemanja Gudelj fyrir leikinn í kvöld.
Olivier Giroud þakkar Nemanja Gudelj fyrir leikinn í kvöld. AFP

Olivier Giroud stal senunni í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld en Frakkinn skoraði öll mörk Chelsea í 4:0 stórsigri gegn Sevilla á Spáni. 

Liðin eru bæði komin áfram í keppninni en stórsigur Chelsea kemur verulega á óvart enda hefur Sevilla staðið sig vel í Evrópuleikjum og unnið Evrópudeildina sex sinnum. Síðast á þessu ári. Chelsea er í efsta sæti með 13 stig og Sevilla er með 10 stig. 

Dortmund er áfram í efsta sæti í F-riðli eftir 1:1 jafntefli gegn Lazio í Þýskalandi en ítalska liðið er stigi á eftir. 

Stórliðin Barcelona og Juventus eru komin áfram úr G-riðlinum. Þau unnu sína leiki örugglega í kvöld og er Barcelona með 15 stig og Juventus er þremur stigum á eftir. Barcelona vann Ferencvaros 3:0 í Ungverjalandi og Juventus vann Dynamo Kiev 3:0 í Tórínó. 

mbl.is