Getur orðið heimsklassavarnarmaður

Jonny Evans og Wesley Fofana í baráttunni við Antonee Robinson, …
Jonny Evans og Wesley Fofana í baráttunni við Antonee Robinson, leikmann Fulham. AFP

Jonny Evans, varnarmaður Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, segir samherja sinn Wesley Fofana búa yfir öllum þeim eiginleikum sem þurfi til að verða heimsklassavarnarmaður.

Fofana, sem er aðeins 19 ára gamall, hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í vörn Leicester á tímabilinu. Hann var keyptur fyrir um 36 milljónir punda frá franska félaginu Saint-Etienne í byrjun október.

„Hann getur mjög líklega orðið einn besti miðvörður í heimi. Stundum gleymir maður því hversu ungur hann er. Hann er mikill íþróttamaður og býr yfir miklum þroska,“ sagði Evans í samtali við BBC.

„Maður getur séð að hann muni verða leikmaður í toppklassa. Hann hefur alla eiginleikana til þess, er mjög öruggur á boltanum og áræðinn í varnarvinnunni. Hann býr yfir miklu sjálfstrausti,“ sagði hann einnig.

Evans sagði einnig að Fofana væri ekki leikmaður sem myndi fara í felur. „Hann mun takast á við allar þær áskoranir sem þarf. Það lítur út fyrir að hann njóti þess að takast á við áskoranir, maður sér það á því hversu áræðinn hann er á vellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert