Skilja ekkert í líkamlegu ástandi Wijnaldum

Georginio Wijnaldum með boltann í leik Liverpool og Ajax í …
Georginio Wijnaldum með boltann í leik Liverpool og Ajax í vikunni. AFP

Sjúkraþjálfarar Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu klóra sér í kollinum yfir því í hversu góðu líkamlegu ástandi Georginio Wijnaldum, miðjumaður liðsins, er.

Wijnaldum hefur þurft að spila gífurlegan fjölda leikja fyrir liðið að undanförnu í þéttri leikjadagskrá.

Á meðan fjölmargir liðsfélaga hans hafa meiðst á undanförnum mánuðum, þar sem vöðvameiðsli hafa verið sérstaklega algeng, virðist ekkert bíta á Wijnaldum.

„Þegar sjúkraþjálfarar liðsins spyrja mig hvernig mér líður og hvort ég þurfi á aukalegri meðhöndlun að halda er ég sjálfur frekar hissa á því þegar ég er ekki svo þreyttur,“ sagði Wijnaldum við opinbera heimasíðu Liverpool.

„Ég er auðvitað þreyttur strax eftir leiki af því að maður gefur allt sem maður á á meðan leik stendur, en ég er heppinn að ná endurheimt ansi hratt og get farið fljótt af stað aftur,“ bætti hann við.

Wijnaldum sér ekki ástæðu til þess að gagnrýna þétta leikjadagskrá Liverpool, líkt og Jürgen Klopp knattspyrnustjóri liðsins hefur reglulega gert að undanförnu.

Segist hann njóta þess að spila svo marga leiki. „Ég reyni bara að njóta hvers einasta leiks sem ég er að spila um þessar mundir. Líka þegar það er mjög erfitt, ég reyni bara að sjá það jákvæða við að spila svo marga leiki og halda mér í góðu formi. Í sannleika sagt nýt ég þess.“

mbl.is