Eiður um City: Þurfa að sannfæra mig um að þeir geti keppt við Liverpool

Eiður Smári Guðjohnsen, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í knattspyrnu, er ekki sannfærður um að Manchester City geti keppt við Englandsmeistara Liverpool um enska meistaratitilinn á komandi keppnistímabili.

City vann 1:0-útisigur gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni um helgina en liðið er í sjöunda sæti deildarinnar með 23 stig, 8 stigum minna en topplið Liverpool.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans, ræddi leik Southampton og City við sérfræðinga sína, þau Eið Smára Guðjohnsen og Margréti Láru Viðarsdóttur, í Vellinum á Síminn Sport í gær.

„Þeir hægja rosalega mikið á þegar liðin eru ekki einu sinni komin vel aftur fyrir bolta,“ sagði Margrét Lára.

„Það er ekki verið að þvinga þá í þetta og þetta eru þeirra eigin ákvarðanir á meðan við horfum á lið eins og Liverpool sem klárar sínar sóknir með miklu meiri ákefð,“ bætti Margrét Lára við.

 „Eitthvað þarf að breytast ef þeir ætla að sannfæra mann um það að þeir geti keppt við Liverpool,“ bætti Eiður Smári við í umræðuna.

mbl.is