Gylfi: Veit ekki hvað ég var að gera í teignum

„Þjálfarinn var búinn að færa mig aftar á völlinn og ég veit ekki alveg hvað ég var að gera í teignum,“ sagði kátur Gylfi Þór Sigurðsson í viðtali eftir að hann skoraði sigurmark Everton í 1:0-sigri á Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Gylfi átti von á erfiðum leik gegn botnliðinu og sú varð raunin. „Við þurftum þessi þrjú stig. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur. Þeir hafa verið óheppnir á leiktíðinni og verið inni í leikjum en síðan tapað með einu marki. Þeir eru ekki með slæmt lið. Aðstæðurnar gerðu okkur erfitt fyrir en það er fullkomið að vinna 1:0 á útivelli.“

Everton er í öðru sæti deildarinnar en Gylfi segir nóg eftir af tímabilinu og leikmenn séu ekki að láta sig dreyma. 

„Ekki enn þá. Það er nóg eftir af tímabilinu og þetta er fljótt að breytast. Við byrjuðum glæsilega en svo komu nokkrir leikir þar sem við litum ekki vel út, en svo höfum við unnið fjóra leiki í röð. Það er nóg eftir en vonandi getum við haldið þessu áfram í janúar,“ sagði Gylfi. 

Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan en mbl.is færir ykkur efni úr enska boltanum í samvinnu við Símann sport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert