Eiður: Vá hvað hlutirnir geta breyst á einum mánuði

Það gengur ekkert hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Chelsea þessa dagana en liðið hefur tapað fjórum af síðustu sex leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Chelsea steinlá á heimavelli gegn Manchester City í stórleik deildarinnar í dag en City leiddi 3:0 í hálfleik.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Síminn Sport, ræddi gengi liðsins og stjórann Frank Lampard við sérfræðinga sína þá Eið Smára Guðjohnsen og Gylfa Einarsson.

„Vá hvað hlutirnir geta breyst á einum mánuði,“ sagði Eiður Smári.

„Það eru fjórar vikur síðan þeir voru að spila frábærlega og maður hugsaði með sér að þeir gætu vel blandað sér í baráttuna um Englandsmeistaratitilinn.

Það var einhvern veginn allt upp á tíu hjá þeim en svo kemur einn tapleikur og þá sér maður hvað býr í liðinu og hversu brothætt það er.

Miðað við leikmannahópinn er óskiljanlegt að Giroud sé ekki að spila meira,“ bætti Eiður Smári meðal annars við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert