Gylfi: Langar stundum að löðrunga Pogba

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur spilað vel fyrir úrvalsdeildarfélagið í undanförnum leikjum.

Pogba fiskaði meðal annars vítaspyrnuna sem Bruno Fernandes skoraði sigurmark United úr gegn Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni á Old Trafford á laugardaginn en Pogba hefur verið orðaður við brottför frá United að undanförnu.

Tómas Þór Þórðarson, ritstjóri enska boltans á Síminn Sport, ræddi leikmanninn við sérfræðinga þáttarins, þá Eið Smára Guðjohnsen og Gylfa Einarsson.

„Maður veit ekki alveg hvar maður hefur Pogba,“ sagði Gylfi. 

„Er hann að spila vel því hann langar til Juventus eða PSG? Það slökknar allt of oft á honum fyrir minn smekk.

Ég hef sagt það allan tímann að það sé langt best fyrir United að Pogba finni sér annað lið því stundum ganga hlutirnir ekki alveg fullkomlega upp.

Hann er góður leikmaður, heimsmeistari með Frakklandi sem dæmi, en það er allt önnur holning á honum þar en með United.

Hann hefur þvílíka hæfileika en mann langar stundum að löðrunga hann,“ bætti Gylfi meðal annars við.

mbl.is