Bauðst til að skutla Özil út á flugvöll

Mesut Özil er ekki vinsæll hjá Piers Morgan.
Mesut Özil er ekki vinsæll hjá Piers Morgan. AFP

Sjónvarsmaðurinn Piers Morgan fagnaði vel og innilega á samfélagsmiðlinum Twitter þegar tilkynnt var að Mesut Özil myndi yfirgefa enska knattspyrnufélagið Arsenal á næstunni.

Morgan, sem er einn vinsælasti sjónvarpsmaður Bretlands og harður stuðningsmaður Arsenal, hefur ekki farið leynt með álit sitt á Özil undanfarna mánuði.

Özil er launahæsti leikmaður Arsenal en hann hefur lítið sem ekkert spilað fyrir Arsenal síðan Mikel Arteta tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í desember 2019.

Morgan hefur marg oft látið Özil heyra það á Twitter, meðal annars þegar leikmaðurinn neitaði að taka á sig launalækkun vegna kórónuveirufaraldursins, en þá nýtti Morgan tækifærið og lét hann heyra það í beinni útsendingu í morgunþætti sínum á ITV í Bretlandi.

„Loksins góðar fréttir á árinu 2021,“ sagði Morgan í Twitter færslu sem hann birti í gær og vísaði þá í líkleg félagaskipti Özil frá félaginu.

„Ef þig vantar far út á flugvöll þá bara heyrirðu í mér,“ bætti Morgan við en Özil hefur meðal annars verið orðaður við DC United í Bandaríkjunum og Fenerbahce í Tyrklandi.

mbl.is