Jákvæðar fréttir úr herbúðum Liverpool

Joel Matip ætti að vera orðinn leikfær þegar Manchester United …
Joel Matip ætti að vera orðinn leikfær þegar Manchester United kemur í heimsókn á Anfield. AFP

Joel Matip, varnarmaður Englandsmeistara Liverpool í knattspyrnu, ætti að vera klár í slaginn þegar Liverpool fær Manchester United í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu 17. janúar. The Athletic greinir frá þessu.

Matip fór meiddur af velli í 1:1-jafntefli Liverpool og WBA í deildinni á Anfield, 27. desember, en miðvörðurinn tognaði aftan í nára.

Hann hefur misst af tveimur síðustu leikjum Liverpool, gegn Newcastle og Southampton í deildinni, en Englandsmeistararnir hafa saknað hans.

The Athletic greinir frá því að endurhæfing Matips gangi vel og það bendir allt til þess að hann verði orðinn heill heilsu þegar United kemur í heimsókn í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar.

Virgil van Dijk og Joe Gomez eru báðir að glíma við langvarandi hnémeiðsli og óvíst hvort þeir spila meira á leiktíðinni.

Matip er því eini miðvörður liðsins sem býr yfir einhverri reynslu en miðjumaðurinn Fabinho hefur leyst stöðu miðvarðar á leiktíðinni og staðið sig frábærlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert