Markvörður yfirgefur Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson kom til Arsenal í haust og Matt …
Rúnar Alex Rúnarsson kom til Arsenal í haust og Matt Macey vék fyrir honum. AFP

Markvörðurinn Matt Macey er farinn frá enska knattspyrnuliðinu Arsenal eftir tæplega átta ára dvöl hjá félaginu og hefur samið við skoska úrvalsdeildarfélagið Hibernian.

Macey, sem er 26 ára gamall, hefur verið þriðji markvörður Arsenal undanfarin ár og aðeins spilað tvo leiki með aðalliði félagsins. Hann var varamarkvörður í tveimur fyrstu leikjum liðsins í úrvalsdeildinni í haust en féll niður í þriðja sætið á ný þegar Rúnar Alex Rúnarsson var keyptur til Lundúnaliðsins frá Dijon í lok september.

Macey var síðan varamarkvörður fyrir Rúnar Alex í þeim fjórum leikjum sem íslenski markvörðurinn spilaði með Arsenal í Evrópudeildinni fyrir áramótin.

Þar með hefur 18 ára gamall Eistlendingur, Karl Hein, færst upp í þriðja sætið á markvarðalista Arsenal, á eftir þeim Bernd Leno aðalmarkverði og Rúnari Alex.

mbl.is