Leeds beið afhroð í enska bikarnum

Jordan Tunnicliffe fagnar þriðja marki Crawley í dag en leikmenn …
Jordan Tunnicliffe fagnar þriðja marki Crawley í dag en leikmenn Leeds fylgjast steinrunnir með. AFP

Enska úrvalsdeildarliðið Leeds fékk 3:0 skell á útivelli gegn D-deildarliði Crawley er liðin mættust í 64-liða úrslitum enska bikarsins í knattspyrnu í dag. Leeds var eitt af þremur úrvalsdeildarliðum sem spilaði snemma í dag og það eina sem var fellt úr keppni.

Þrátt fyrir að tefla fram nokkuð sterku byrjunarliði náði Leeds ekki að skora mark gegn Crawley sem situr í 6. sæti í fjórðu efstu deild. Heimamenn komust yfir á 50. mínútu með marki frá Nick Tsaroulla og aðeins þremur mínútum síðar bætti Ashley Nadesan við. Jordan Tunnicliffe skoraði svo þriðja markið á 70. mínútu og vann Crawley frækinn sigur.

Hin tvö úrvalsdeildarliðin sem voru að spila lentu ekki í vandræðum með andstæðinga sína. Chelsea vann 4:0-sigur á Morecambe sem spilar einnig í D-deildinni. Mason Mount, Timo Werner, Callum Hudson-Odoi og Kai Havertz skoruðu mörkin.

Þá vann Manchester City 3:0-sigur á B-deildarliði Birmingham en heimamenn skoruðu mörkin á fyrstu 33 mínútum leiksins, Bernarndo Silva skoraði tvö og Phil Foden bætti við einu. Þá vann Barnsley 2:0-sigur á Tranmere og Bristol City hafði betur gegn Portsmouth, 2:1.

Síðar í dag heimsækir Tottenham lið Marine FC sem situr í 8. deild enska fótboltans og svo tekur Newport á móti Brighton klukkan 19:45. Á morgun fer svo fram einn leikur, Stockport fær West Ham í heimsókn, og verður þá þriðju umferðinni lokið að undanskildum leik Southampton og Shrewsbury sem var frestað eftir að nokkur kórónuveirusmit greindust hjá síðarnefnda liðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert