Sóknarmaður Arsenal líklega lengi frá

Gabriel Martinelli.
Gabriel Martinelli. AFP

Sóknarmaðurinn Gabriel Martinelli meiddist alvarlega á ökkla í upphitun fyrir leik Arsenal gegn Newcastle í enska bikarnum í fótbolta í gærkvöldi og verður sennilega frá keppni í nokkurn tíma samkvæmt Sky Sports.

Martinelli er nýlega snúinn aftur eftir meiðsli en hann átti að byrja sinn þriðja leik í röð fyrir Lundúnaliðið í gær þegar hann meiddist í upphituninni á Emirates-leikvanginum. Hann á eftir að undirgangast frekari skoðun hjá læknateymi félagsins en knattspyrnustjórinn Mikel Arteta segist miður sín yfir meiðslunum.

„Hann var í tárum og fann fyrir miklum sársauka, ég er algjörlega miður mín og ég reikna með að við fáum slæmar fréttir,“ sagði Arteta en Martinelli meiddist alvarlega á hné í fyrra og var lengi frá. Hann hefur hins vegar þótt standa sig vel eftir að hann sneri aftur í liðið.

mbl.is