Viðurkennir mistök þegar van Dijk meiddist

Jordan Pickford markvörður Everton brýtur á Virgil van Dijk.
Jordan Pickford markvörður Everton brýtur á Virgil van Dijk. AFP

Knattspyrnumaðurinn Virgil van Dijk meiddist alvarlega í leik Liverpool og Everton í október síðastliðnum og hefur ekki getað spilað fótbolta síðan en hann þurfti að fara í aðgerð með skaddað krossband í hné.

Hollendingurinn meiddist illa þegar Jordan Pickford, markvörður Everton, braut illa á honum en dómari leiksins, Michael Oliver, refsaði Pickford ekki fyrir brotið. Niðurstaðan var heldur sú að Van Dijk var rangstæður í aðdragandanum og því ekkert aðhafst frekar.

Nú hefur Oliver hins vegar viðurkennt mistök sín en hann segist hafa átt að gefa Pickford rautt spjald og reka hann af velli. „Ég gaf ekki víti vegna þess að hann var rangstæður, ég sagði við myndbandsdómarann að ég myndi dæma víti ef ekki væri um rangstöðu að ræða,“ sagði Oliver í viðtali við Daily Mail en ekki er algengt að dómarar ræði við fjölmiðla.

„Við hefðum samt getað dæmt rangstöðuna og samt rekið Pickford af velli fyrir háskaleik, við hefðum átt að gera það,“ viðurkenndi Oliver og bætti við að hann væri heilt yfir hrifinn af VAR-myndbandsdómgæslukerfinu þrátt fyrir að það sé umdeilt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert