Alltaf hugsaður sem þriðji markvörður Arsenal

Rúnar Alex Rúnarsson hefur byrjað fimm leiki með Arsenal síðan …
Rúnar Alex Rúnarsson hefur byrjað fimm leiki með Arsenal síðan hann gekk til liðs við félagið í september. AFP

Enska knattspyrnufélagið Arsenal vonast til þess að kaupa markvörð í janúarglugganum.

Það er David Ornstein, blaðamaður The Athletic, sem greinir frá þessu. Landsliðsmarkvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson er samningsbundinn Arsenal en hann gekk til liðs við enska félagið frá Dijon í Frakklandi í september á síðasta ári.

Rúnar Alex hefur ekki fengið mörg tækifæri með liðinu en hann var í byrjunarliði Arsenal sem tapaði 4:1-fyrir Manchester City í undanúrslitum enska deildabikarsins í desember.

Þar gerð hann sig sekan um slæm mistök og hefur hann ekki fengið tækifæri í byrjunarliðinu síðan.

Ornstein greinir frá því að Rúnar Alex hafi alltaf verið hugsaður sem þriðji markvörður liðsins og að Mikel Arteta vonist til þess að fá inn varamarkvörð til þess að berjast við Bernd Leno um stöðuna.

Rúnari Alex yrði þá leyft að fara á láni en það er ljóst að mínútum hans með Arsenal myndi fækka enn þá frekar ef félagið fær inn annan markvörð.

mbl.is