Einn af fáum sem vantar í safnið hjá Klopp

Georginio Wijnaldum gekk til liðs við Liverpool í júlí 2016.
Georginio Wijnaldum gekk til liðs við Liverpool í júlí 2016. AFP

Georginio Wijnaldum, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, vonast til þess að vinna ensku bikarkeppnina á þessari leiktíð.

Wijnaldum hefur leikið með Liverpool frá árinu 2016 en hann varð Englandsmeistari með Liverpool á síðustu leiktíð.

Þá varð hann Evrópumeistari með Liverpool 2019, sem og heimsmeistari félagsliða, en liðið varð síðast enskur bikarmeistari árið 2006 eftir sigur gegn West Ham í vítakeppni á Wembley.

„Við gáfum það út fyrir tímabilið að við ætluðum okkur að berjast um alla þá titla sem í boði voru,“ sagði Wijnaldum í samtali við heimasíðu félagsins.

„Það er orðið erfiðara en það var að vinna marga titla á einu og sama tímabilinu þar sem leikjaálagið er alltaf að aukast.

Við þurfum því að hreyfa vel við liðinu á milli leikja og á meðan möguleikinn er til staðar að vinna bikara munum við setja allan okkar kraft í það.

Við höfum ekki unnið ensku bikarkeppnina í langan tíma og það var eitt af okkar stærstu markmiðum fyrir leiktíðina,“ bætti Wijnaldum við.

mbl.is