Hafnaði samningstilboði Tottenham

Hugo Lloris gæti verið á förum frá Tottenham eftir átta …
Hugo Lloris gæti verið á förum frá Tottenham eftir átta ár í herbúðum félagsins. AFP

Hugo Lloris, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Tottenham, gæti verið á förum frá félaginu næsta sumar en hann er samningsbundinn í London til sumarsins 2022.

Football Insider greinir frá því að Tottenham hafi boðið leikmanninum nýjan samning á dögunum sem markvörðurinn hafnaði.

Spænski miðillinn Todo Fichajes greinir frá því að Lloris vilji komast aftur heim til Frakklands og semja við PSG þar sem fyrrverandi stjóri hans hjá Tottenham, Mauricio Pochettino, tók við stjórnartaumunum á dögunum.

Lloris, sem er 34 ára gamall, gekk til liðs við Tottenham frá Lyon árið 2012 og hefur verið fyrirliði félagsins frá því í ágúst 2015 en það var Pochettino sem gerði hann að fyrirliða á sínum tíma.

Markvörðurinn á að baki 120 landsleiki fyrir Frakka en hann hefur verið fyrirliði franska landsliðsins frá 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert