Neville að taka við liði Beckhams

Phil Neville er á leið til Bandaríkjanna.
Phil Neville er á leið til Bandaríkjanna. AFP

Phil Neville verður næsti knattspyrnustjóri Inter Miami, nýs liðs Davids Beckhams í bandarísku MLS-deildinni, en Neville er í dag þjálfari enska kvennalandsliðsins.

Það er BBC sem greinir frá þessu en Neville tók við enska kvennalandsliðinu í janúar 2018 og hefur gert mjög góða hluti með liðið sem hafnaði í fjórða sæti á HM í Frakklandi 2019 eftir 2:1-tap gegn Svíþjóð í Nice.

Samningur Neville við enska knattspyrnusambandið átti að renna út eftir lokakeppni EM sem átti að fara fram næsta sumar en mótinu var frestað til sumarsins 2022 vegna kórónuveirunnar.

Þá átti Neville einnig að stýra enska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Tókýó en af því verður ekki eftir að leikunum var frestað um eitt ár.

Neville og Beckham þekkjast vel eftir að hafa spilað saman hjá Manchester United í fjölda ára en Sarina Wiegman mun taka við þjálfun enska liðsins.

mbl.is