Stöðutaflan skiptir ekki máli núna

Ole Gunnar Solskjær fær tækifæri til að komast í efsta …
Ole Gunnar Solskjær fær tækifæri til að komast í efsta sæti úrvalsdeildarinnar annað kvöld. AFP

Manchester United verður á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fyrsta sinn síðan Alex Ferguson hætti störfum sem knattspyrnustjóri, fái liðið stig úr leik sínum gegn Burnley á Turf Moor annað kvöld.

Liverpool er efst með 33 stig og betri markatölu en Manchester United, sem einnig er með 33 stig en á leikinn annað kvöld til góða. Með sigri eða jafntefli fer United í toppsætið með 36 eða 34 stig.

Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United sagði á fréttamannafundi í dag að stöðutafla deildarinnar skipti ekki öllu máli á þessu stigi keppnistímabilsins.

„Taflan skiptir ekki máli núna. Það er í mars og apríl sem úrslitin ráðast. Þetta er leikurinn þar sem við jöfnum leikjafjöldann við hina þar sem við hófum tímabilið seinna. Núna snýst þetta um að spila vel og safna stigum. Okkur hefur gengið vel með það,“ sagði Solskjær.

„Frá því Alex hætti hefur liðið verið öðru, þriðja, fjórða, fimmta, sjötta eða sjöunda sæti. Það er nauðsynlegt að við festum okkur í sessi meðal fjögurra efstu liða. Það hefur aðeins tekist þrisvar eftir að Alex fór,“ sagði Norðmaðurinn en Alex Ferguson hætti störfum árið 2013 eftir að hafa stýrt United í 27 ár og er sigursælasti stjóri félagsins í sögunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert