Van Dijk að nálgast endurkomu?

Virgil van Dijk hefur fylgst með liðsfélögum sínum úr stúkunni …
Virgil van Dijk hefur fylgst með liðsfélögum sínum úr stúkunni undanfarna mánuði. AFP

Carlton Palmer, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í knattspyrnu og sparkspekingur á Bretlandi, telur að hollenski varnarmaðurinn Virgil van Dijk gæti snúið aftur á knattspyrnuvöllinn í byrjun mars á þessu ári.

Van Dijk hefur ekkert leikið með Liverpool síðan um miðjan október þegar hann var tæklaður illa af Jordan Pickford, markverði Everton, í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni á Goodison Park.

Miðvörðurinn meiddist á hné og þurfti að gangast undir aðgerð vegna meiðslanna en hann hefur verið duglegur að birta myndir og myndbönd af endurhæfingu sinni á samfélagsmiðlum undanfarna daga.

„Miðað við það sem ég hef séð er hann byrjaður að bæði hjóla og skokka sem eru frábærar fréttir fyrir Liverpool,“ sagði Palmer í samtali við vefmiðilinn Football Fancast.

„Ef hann er farinn að hlaupa í beinni línu þá er alveg hægt að gera ráð fyrir því að hann snúi aftur á næstu mánuðum, jafnvel í lok febrúar ef allt gengur að óskum.

Það má ekki gleymast að hann er ótrúlegur atvinnumaður sem hefur alla tíð hugsað gríðarlega vel um sjálfan sig. 

Alan Shearer gekk í gegnum svipuð meiðsli á sínum ferli en hann sneri aftur á mettíma því hann hann hefur alla tíð verið í frábæru formi. 

Leikmenn sem hugsa um heilsuna og líkamann eru mun fljótari að jafna sig en þeir sem gera það ekki,“ bætti Palmer við sem lék átján landsleiki fyrir England á sínum tíma.

Í fyrstu var reiknað með því að van Dijk yrði frá út keppnistímabilið en Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, hefur lítið viljað tjá sig um endurkomu leikmannsins. 

mbl.is