Fyrsti sigur tímabilsins

Billy Sharp fagnar sigurmarki sínu ásamt liðsfélögum sínum.
Billy Sharp fagnar sigurmarki sínu ásamt liðsfélögum sínum. AFP

Sheffield United vann sinn fyrsta leik á tímabilinu í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar Newcastle kom í heimsókn á Bramall Lane í Sheffield í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Sheffield en það var Billy Sharp sem skoraði sigurmark leiksins með marki úr vítaspyrnu á 73. mínútu.

Ryan Fraser, sóknarmaður Newcastle, fékk að líta tvö gul spjöld og þar með rautt á þriggja mínútna kafla í fyrri hálfleik og Sheffield-menn nýttu sér liðsmuninn í síðari hálfleik.

Þrátt fyrir sigurinn er Sheffield áfram í neðsta sæti deildarinnar með 5 stig eftir átján spilaða leiki en liðið er 10 stigum frá öruggu sæti.

Newcastle er hins vegar í fimmtánda sæti deildarinnar með 19 stig en liðið er án sigurs í síðustu sex deildarleikjum sínum.

mbl.is