Hirðir Bayern miðvörðinn eftirsótta af ensku liðunum?

Dayot Upamecano er eftirsóttur varnarmaður.
Dayot Upamecano er eftirsóttur varnarmaður. AFP

Franski miðvörðurinn Dayot Upamecano hefur verið sterklega orðaður við þrjú af stærstu félögum Englands að undanförnu en nú virðist sem Evrópu- og Þýskalandsmeistarar Bayern München séu langt komnir með að hirða hann fyrir framan nefið á þeim.

Bæði Sport 1 í Þýskalandi og Marca á Spáni segja að Bayern sé langt komið í viðræðum um kaup á Upamecano og RB Leipzig sé búið að samþykkja tilboð í hann. 

Upamecano er 22 ára gamall og hefur verið í lykilhlutverki hjá Leipzig í þýsku 1. deildinni og Meistaradeildinni í vetur og Manchester United, Liverpool og Chelsea hafa öll verið talin líkleg til að fá hann í sínar raðir.

mbl.is