Stórt próf fram undan

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United.
Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, var í skýjunum eftir 1:0-sigur sinna manna gegn Burnley á Turf Moor í Burnley í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Það var Paul Pogba sem skoraði sigurmark leiksins á 71. mínútu með laglegu skoti utan teigs eftir undirbúning Marcus Rashfords.

„Ég er virkilega sáttur með frammistöðu liðsins og ég brosi alltaf þegar að við fáum þrjú stig í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Solskjær.

„Við gerðum virkilega vel í að halda okkur við leikplanið og þrátt fyrir að ákvarðanir dómaratríósins og VAR hafi ekki fallið með okkur misstum við aldrei hausinn. Það átti aldrei að dæma fyrsta markið af okkur en svona er þetta stundum.

Pogba skoraði frábært mark og við verðum að gefa honum hrós fyrir það. Hann hefur spilað virkilega vel fyrir okkur í undanförnum leikjum og sýnt úr hverju hann er gerður eftir talsverða gagnrýni á tímabilinu.

United mætir Liverpool á Anfield í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn kemur og er Solskjær spenntur fyrir komandi verkefni.

„Við erum fullir sjálfstrausts þegar við mætum til leiks þessa dagana og við höfum staðið okkur mjög vel á útivelli á leiktíðinni til þessa.

Það er stórt próf fram undan gegn meisturunum og ég er spenntur að sjá hvernig okkur mun takast til,“ bætti Solskjær við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert