Vil ekki fá leikmann sem vill ekki koma aftur

Moise Kean hefur náð sér á strik með PSG í …
Moise Kean hefur náð sér á strik með PSG í vetur. AFP

Carlo Ancelotti knattspyrnustjóri Everton kveðst sáttur við að ítalski framherjinn Moise Kean verði seldur til París SG en þar hefur hann verið í láni frá enska félaginu og staðið sig mjög vel.

Kean hefur engan veginn náð sér á strik með Everton og var í október lánaður til franska stórliðsins. Þar hefur hann hrokkið í gang og skorað ellefu mörk í átján leikjum.

Sky Sports segir að PSG og Everton séu í viðræðum um kaup Frakkanna á honum og verðið sé í kringum 31 milljón punda.

Everton keypti Kean af Juventus í ágúst 2019 og greiddi fyrir hann 27 milljónir punda.

„Þetta er góð reynsla sem hann fær hjá PSG. Hann hefur skorað fullt af mörkum og sýnt hvað í honum býr. Ef hann vill koma aftur til okkar þá tökum við glaðir á móti honum. Ef hann vill vera áfram hjá PSG þá þurfum við að ræða við PSG. Hvað sem öllu líður þá vil ég ekki fá leikmann sem vill ekki koma aftur til okkar. Ef hann vill koma, þá er hann velkominn aftur,“ sagði Ancelotti við Sky Sports.

Everton sækir Wolves heim í kvöld og verður áfram án markaskorarans Dominic Calvert-Lewin sem er úr leik í bili vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert