Foden skaut City í þriðja sætið

Phil Foden fagnar sigurmarki sínu.
Phil Foden fagnar sigurmarki sínu. AFP

Phil Foden reyndist hetja Manchester City þegar liðið fékk Brighton í heimsókn í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Etihad-völlinn í Manchester í kvöld.

Leiknum lauk með 1:0-sigri City en Foden skoraði sigurmark leiksins á 44. mínútu eftir undirbúning Kevins De Bruyne.

Raheem Sterling fékk tækifæri til þess að tvöfalda forystu City í uppbótartíma en vítaspyrna hans fór hátt yfir markið.

City fer með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar og er nú með 32 stig, stigi minna en Liverpool, en City á leik til góða á Englandsmeistarana.

Brighton er  í sautjánda sæti deildarinnar og er nú einungis þremur stigum frá fallsæti.

mbl.is