Frestað í ensku úrvalsdeildinni?

Hópsmit kom upp hjá Aston Villa í síðustu viku.
Hópsmit kom upp hjá Aston Villa í síðustu viku. AFP

Óvíst er hvort leikur Aston Villa og Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á Villa Park í Birmingham geti farið fram á sunnudaginn kemur.

Sky Sports greinir frá þessu en kórónuveirusmit kom upp í herbúðum Aston Villa greindust níu leikmenn liðsins með veiruna.

Æfingasvæði félagsins var lokað vegna þessa en eins og sakir standa er óvíst hvenær leikmenn geta snúið aftur til æfinga.

Forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar munu funda með forráðamönnum Aston Villa í vikunni og má búast við tilkynningu frá deildinni eftir þann fund.

Aston Villa er með 26 stig í áttunda sæti deildarinnar en liðið á tvo leiki til góða á liðin fyrir ofan sig.

mbl.is